Fréttir Myndir Gullkorn Gyssurar Þjóðargersemi Sigm Und-ur Ýmislegt Könnunin Fréttabréf Samband
Fréttir Myndir Gullkorn Gyssurar Þjóðargersemi Sigm Und-ur Ýmislegt Könnunin Fréttabréf Samband
Loka valmynd

Atkvæðaveiðitímabilið er hafið!


Allt fyrir alla og ekkert fyrir engan Klukkan er greinilega kortér í kosningar


Raunveruleikaþátturinn „Allir á atkvæðaveiðum“ var sýndur á RÚV í gærkvöld. Um er að ræða einskonar endurgerð á framtíðarþáttunum „Hungurleikarnir“.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur sem kunnugt er múlbundið alla stuðningsmenn Sigurðar Inga, og því komst Eygló Harðardóttir ekki í þáttinn.


Í stað hennar mætti Elsa Lára Arnardóttir.

Hún hafði ekkert til málanna að leggja.

Guðmundur Magnússon sem mætti fyrir hönd Alþýðufylkingarinnar sagði að réttast væri að ríkisvæða allt heila klabbið, og opna svo konfektkassa eða fá sér sígarettu.

Jón Þór Ólafsson, talsmaður Pírata, nennti lítið að ræða um sveigjanleg starfslok ellismella. Hann sagði þó að Portúgalar væru frábærir. Meira að segja Ronaldo. Hann gekk þó ekki svo langt að lýsa yfir aðdáun á Pepe, enda hefði slík yfirlýsing trúlega haft í för með sér gríðarlegt og varanlegt fylgistap.

Inga Sæland, sem talaði fyrir hönd Flokks fólksins og dýranna, sagði að hún ætlaði aldrei framar að tryggja hjá Sjóvá, og að unglingar væru upp til hópa þunglyndir, og ættu að fara á Dale Carnegie námskeið.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (stundum kölluð Álfheiður) sem var fyrir tilviljun stödd í þættinum fyrir hönd Samfylkingar, skýrði frá því að slagorðasmiður flokksins hefði verið andlaus undanfarna daga, og eini frasinn sem hún hefði tilbúinn til notkunar væri því „Besta heilbrigðiskerfi í heimi“. Hún sagði að fjöldi upphrópunarmerkja sem fylgdi frasanum væri enn sem komið er valfrjáls.

Í ljós kom að Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, sem talaði eins og venjulega fyrir hönd Sjálfstæðisflokks, veit ekkert um heilbrigðismál. Hann hafði aldrei heyrt minnst á „gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu“, og dró í efa að orðið „gjaldfrjálst“, sé í raun og veru til.

Hann lýsti sig þó sammála öllum ræðumönnum í öllum atriðum, svona til öryggis, ef vera skyldi að það tryggði honum einhver atkvæði.

RÚV






Eldhúsdagsdansinn






Fara efst á síðu