Fréttir Myndir Gullkorn Gyssurar Þjóðargersemi Sigm Und-ur Ýmislegt Könnunin Fréttabréf Samband
Fréttir Myndir Gullkorn Gyssurar Þjóðargersemi Sigm Und-ur Ýmislegt Könnunin Fréttabréf Samband
Loka valmynd

Yfirlætið flæddi úr oflátungnum enda á hann því ekki að venjast að þurfa að umgangast almenning.


Fékk heiftarlegt frekjukast Heimtar tilhlýðilega virðingu


Ofalinn oflátungur með vandlega pússaða silfurskeið standandi út úr afturenda sínum fékk heiftarlegt frekju- og æðiskast í gær.

Ástæðan var sú að honum fannst lægstvirtur seðlablankastjóri koma of kumpánalega fram við föður hans, herra Kvótagreifa.


Að sögn hins freka spjátrungs er ekki við hæfi að fólk nálgist herra Kvótagreifa á jafnréttisgrundvelli, þar sem hann hafi orðið ofurríkur á sameiginlegri auðlind Íslendinga og sé því mörgum stéttum ofar en þeir sem gáfu honum auðinn.

Rétt sé að fólk nálgist föður hans löturhægt, skríðandi á fjórum fótum ef ekki á maganum, hálfvælandi eða að minnsta kosti umlandi og passi vel að beina augum sínum frá heilagri ásjónu greifans og þráðbeint niður í gólf. 

Ef fólk fær þannig að njóta návista við hinn háæruverðuga Kvótagreifa, skuli það kyssa og sleikja hendur hans og demantshringi af miklum móð, uns hann þreytist á því og sparkar því í burtu eða afhausar það.

Von er á bókinni „Mannasiðir og umgengnisvenjur - Lærðu að læðast í kringum ofurríka elítuna“ fyrir næstu jól. Þá mun sauðsvartur almúginn geta kynnt sér nútíma siði og háttalag sem rétt er að hafa í hávegum ef svo ólíklega og óheppilega vill til að fólk slysist til að lenda í návígi við fordekraðan og heimtufrekan íslenskan aðal.


Herrann í Hádegismóum...


Fara efst á síðu