Allir og amma þeirra keppast nú við að hneykslast á því að kona þessi hafi á alvörunni orðið ráðherra. Þvílík skömm og þvílík hneisa. Fréttafólk landsins froðufelldi af réttlátri bræði í beinni útsendingu í gær.
En hver var þessi skelfilegi glæpur sem Ásthildur Lóa varð skyndilega uppvís að? Jú, hún eignaðist son fyrir 35 árum síðan. En haldið ykkur fast lesendur góðir, því það er ekki það versta. Hún eignaðist barn með YNGRI MANNI.
Er nema von að samfélagið hafi farið á hliðina? Þvílíkt og annað eins. Fréttaritari á erfitt með að beita penna sínum, svo hneykslaður er hann á framferði konunnar.
Þess vegna er mikill léttir að sjá siðfræðinginn með hvítu augabrúnirnar kasta grjóti úr glerhúsi sínu. Þjóðinni er mjög létt að hafa losnað við þessa stórhættulegu móður úr ráðherraembætti og nú er von að einhver gallalaus vera taki þetta embætti að sér.
Kannski væri hægt að ráða siðfræðinginn góða? Vonandi á hann ekki börn.