Fréttir Myndir Gullkorn Gyssurar Þjóðargersemi Sigm Und-ur Ýmislegt Könnunin Fréttabréf Samband
Fréttir Myndir Gullkorn Gyssurar Þjóðargersemi Sigm Und-ur Ýmislegt Könnunin Fréttabréf Samband
Loka valmynd

Katrín þykir einstaklega alþýðleg. Jafnvel eftir svo langa setu á valdastóli.


Kata Jak (Framboðskynning)


Katrínu Jakobsdóttur þarf vart að kynna fyrir landsmönnum, enda hefur hún haldið þéttingsfast um stjórnartaumana undanfarin ár. Katrín hefur verið talsmaður stöðnunar og miðjumoðs í íslenskum stjórnmálum ásamt bakkabræðrum sínum, þeim Bjaddna og hvaðsemhannheitir þarna í framsókn.

Þið munið, þessi sem varð frægur fyrir ástarpylsuát.

Katrínu hefur á undraverðan hátt tekist að breyta flokki sínum úr róttækum umhverfisflokki af vinstri gerðinni í einstaklega litlausan og bitlausan íhaldsflokk. Enda mælist flokkur hennar nú með fylgi undir frostmarki og er í raun í andarslitrunum.

Katrínu fannst því að nú væri réttur tími til að stökkva frá borði og finna sér annað þægilegt innivinnudjobb.

Að vera í forsvari fyrir íhaldsstjórn ládeyðunnar og valdsins árum saman kallar Katrín „þátttöku í stjórnmálum“ sem er í sjálfu sér enn eitt Íslandsmet hennar í vantúlkun og skrumskælingum.

Sjálfgræðismenn af öllum toga fylkja sér nú um Katrínu sem þeir líta á sem andlegan leiðtoga sinn og ákalla Mammon í von um að loksins, loksins verði þeirra fulltrúi með helbláa hönd valinn til húsbóndastarfa á stöðunum hans Bessa.

Enginn imprar einu sinni á þeirri spurningu hvort eðlilegt sé að forsætisráðherra stökkvi í embætti forseta. Enda eru engir vanari tíðum stólaskiptum en einmitt sjálfgræðismenn því sjálfur hefur þeirra besti Bjaddni hrökkvast á milli svo margra stóla að rassaför hans má finna í hásætum flestra ráðuneyta.

Alþýðan veit hins vegar ekki sitt rjúkandi ráð og nú er svo komið að allir frambjóðendur mælast með nákvæmlega jafn mikið fylgi, sé eitthvað að marka skoðanakannanir.

Það er því útlit fyrir spennandi kosninganótt og mun Katrín standa fyrir miklu kosningapartíi í Valhöll, samkomustað allra landsmanna, afsakið, ríkra valdhafa.






xB 2014






Fara efst á síðu