Fréttir Myndir Gullkorn Gyssurar Þjóðargersemi Sigm Und-ur Ýmislegt Könnunin Fréttabréf Samband
Fréttir Myndir Gullkorn Gyssurar Þjóðargersemi Sigm Und-ur Ýmislegt Könnunin Fréttabréf Samband
Loka valmynd

Ragnar er sæmilega saddur eftir allar bollurnar en engu að síður afar ósáttur við tímasetningu átsins


Fékk ekki rjómabollu á réttum tíma Mun jafna sig seint og illa eða mögulega aldrei


Ragnar Róbertsson varð fyrir gríðarlegu áfalli í morgun. Eins og alltaf á bolludaginn var hann mættur eldsnemma í hverfisbakarí sitt með blótkrukkuna sína.

Ragnar hefur það fyrir vana að eyða því sem safnast hefur í blótkrukkuna yfir árið í ljúffengar rjómabollur af öllum stærðum og gerðum.


„Sérstaklega samt bollur með karamellukremi eða jarðarberjasultu eða jarðarberjarjóma eða einhverju svona myntubragði eða ávaxtakeim eða baileysrjóma eða bara venjulegri rabarbarasultu en samt alltaf líka með súkkulaði, og helst rosalega miklu súkkulaði, jafnvel alveg fáránlega miklu,“ útskýrir Ragnar dreyminn á svip.

En nú brá svo við að þegar röðin kom loks að Ragnari þá voru bara allar bollurnar búnar.

„Búnar, uppseldar, horfnar og étnar upp til agna,“ segir Ragnar hrjúfri röddu og brestur umsvifalaust í grát.

„Þetta var þvílíkt áfall. Ég brotnaði auðvitað niður á staðnum. Fyrst grátbað ég starfsfólkið um að leita á lagernum, en svo hótaði ég að sleikja allt súkkulaðið af snúðunum, stinga göt á kleinuhringina og pissa í kaffið hjá viðskiptavinum sem voru svo heppnir að hafa fengið bollur.“

Ragnar segir að þrátt fyrir að ný sending af bollum hafi borist innan skamms og hann hafi fengið sinn skammt og rúmlega það, þá séu þetta algjörlega óafsakanleg mistök hjá bakaríinu.

Hann sé vanur að fá sér bollu(r) klukkan 08:13 á hverjum einasta bolludegi, en í þetta sinn hafi hann ekki fengið sína fyrstu bollu fyrr en klukkan rétt rúmlega 08:19.

„Þarna eru ekki bara rúmar sex mínútur af lífi mínu sem ég fæ aldrei aftur, heldur var hver sekúnda eins og ár að líða, því biðin var svo óendanlega erfið. Svo horfði ég á allt hitt fólkið troða bollu eftir bollu eftir bollu í andlitið á sér á meðan ég gat ekkert gert nema ímynda mér hvernig bragðlaukarnir í þessu liði voru að springa úr gleði og kátínu.“

Ragnar segist ekki viss um að hann muni nokkurn tíma jafna sig fyllilega hvað þá að hann muni ná sér að fullu. Áfallið hafi verið svo mikið að hann sé mest hissa á því að hafa lifað þetta allt saman af.

Hann segir að nú sé hann þjakaður af kvíða yfir því að fá ekkert saltkjöt á morgun og ef hann fái saltkjöt að þá verði það of kalt eða ekki nógu salt, allavega ekki allt.


Fréttablaðið


Herrann í Hádegismóum...


Fara efst á síðu