Fréttir Myndir Gullkorn Gyssurar Þjóðargersemi Sigm Und-ur Ýmislegt Könnunin Fréttabréf Samband
Fréttir Myndir Gullkorn Gyssurar Þjóðargersemi Sigm Und-ur Ýmislegt Könnunin Fréttabréf Samband
Loka valmynd

Ragnar er sannfærður um að Ed Sheeran sé með sig á heilanum, eftir að hafa hlustað á dónasöng hans.


Keypti óvart miða á Ed Sheeran Ætlaði bara á harmonikkuhátíð


Ragnar Róbertsson varð fyrir því mikla óláni í gærmorgun að kaupa óvart miða á tónleika með Ed Sheeran.

Ragnar hugðist kaupa sér miða á Harmonikkuhátíð eldri borgara sem fram fer í júní í félagsheimilinu Ásbyrgi á Laugarbakka í Miðfirði.


Skortur á lesgleraugum og nokkrir rangir músasmellir leiddu þó til þess að hann endaði sem fyrr segir með miða á snarvitlausan viðburð.

Ragnar segir að sér hafi fundist miðaverðið nokkuð hátt, hann hafi aðeins þurft að greiða 6 þúsund krónur fyrir miða á harmonikkuhátíðina fyrr á þessu ári, en nú hafi hann borgað 30 þúsund krónur.

„Og þá rann upp fyrir mér að ég hafði ekki keypt miða á Harmonikkuhátíðina, heldur á tónleika með þessum skærrauðhærða tónlistardvergi“, útskýrir Ragnar með grátstafinn í kverkunum.

„Ég hjólaði auðvitað strax niður í plötubúð og keypti mér vínylplötu með kappanum og hélt svo rakleiðis heim og skellti henni á fóninn.

Og þá fyrst skildi ég hversu afdrifarík mistök ég hafði gert. Hann var varla búinn að hefja upp raust sína þegar hann gerðist klámfenginn, sagðist elska líkama minn og bætti því við að lakið hans lyktaði af mér.

Mér brá illa við þessi orð, því ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tímann hitt þennan mann. Hvað þá sofið hjá honum.

Ragnar segist hafa verið í kvíðakasti í allan gærdag. Hann hafi átt erfitt með svefn í nótt. Í morgun hafi hann svo verið svo djúpt hugsi yfir þessu öllu saman, að hann hafi steingleymt að setja rjóma út í kaffið, og þess vegna skaðbrennt sig á tungunni.

Hann segist því miður nokkuð viss um að fjártjón hans sé varanlegt, því hann dragi stórlega í efa að nokkur viti borin manneskja vilji ótilneydd hlýða á svona ósóma, og það sé því nánast óhugsandi að hann geti endurselt miðann sinn.

Hann reiknar því með að mæta á tónleikana, en ætlar að vera með með bæði eyrnatappa og heyrnarhlífar, og mögulega lambhúshettu líka.

Ef einhver vill kaupa miðann af Ragnari, þá getur sá hinn sami haft samband við hann í síma 562 0224.


„Löggulíf“


Fara efst á síðu