Fréttir Myndir Gullkorn Gyssurar Þjóðargersemi Sigm Und-ur Ýmislegt Könnunin Fréttabréf Samband
Fréttir Myndir Gullkorn Gyssurar Þjóðargersemi Sigm Und-ur Ýmislegt Könnunin Fréttabréf Samband
Loka valmynd

Í leikskóla er gaman, þar leika allir saman. Eða hvað?


Vilja ekki leika sér saman Erfið og flókin staða í leikskólastarfi


Starfsemi á leikskólanum við Austurvöll liggur niðri og hefur gert um nokkurt skeið. Ástæðuna má rekja til þess að krakkarnir neita að leika sér fallega.

Hann Benni litli harðneitar nefnilega að leika við aðra, en segir þó að Óttarr megi leika við sig, en bara í frekar óhuggulegum síamstvíburaleik, sem hann fann upp sjálfur. 


Bjarni litli vildi endilega fá að leika við tvíburana, en Benni haggaðist ekki í afstöðu sinni, sagðist aðeins leika við sjálfan sig, og líka pínu við Óttar.

Þá sameinuðu flest rólegu og þægu börnin krafta sína, og buðust til að leika við Benna og Óttar. Þeir mættu velja hvort farið væri í dúkkó eða bíló, en Benni sagði bara nei, nei, nei, og aftur nei.

Þægu krakkarnir eru þess vegna farnir að íhuga alvarlega að bjóða Sigga sæta að vera með í staðinn, enda kann hann vel að leika sér fallega. 

Hvorki Óttarr né krakkarnir af sjóræningjadeildinni vilja hins vegar leika við Sigga sæta af því að hann var einu sinni að leika við Simma krimma, og enginn af krökkunum nennir lengur að reyna að leika við hann, enda vill hann bara vera í lygaraleik.

Bjarni vill hins vegar leika við alla, en hann vill einungis spila Matador og samkvæmt hans reglum fær enginn tvö þúsund krónur fyrir að fara yfir byrjunarreit nema hann sjálfur og frændur hans. Það finnst hinum krökkunum frekar leiðinlegt. Nema Benna, enda er hann einmitt frændi Bjarna.

Guðni Th. Jóhannesson, leikskólastjóri, segist þó bjartsýnn á að krakkarnir muni finna út úr þessu öllu fyrr eða síðar, og fara að leika sér saman. Hvort sem það verði nú fallegur leikur eða ekki.

Hann ætlar því ekkert að gera í málinu að svo stöddu, en lofar að kíkja á krakkana öðru hvoru, og gefa þeim kókómjólk og kjötbúðing.


„Löggulíf“


Fara efst á síðu