Fréttir Myndir Gullkorn Gyssurar Þjóðargersemi Sigm Und-ur Ýmislegt Könnunin Fréttabréf Samband
Fréttir Myndir Gullkorn Gyssurar Þjóðargersemi Sigm Und-ur Ýmislegt Könnunin Fréttabréf Samband
Loka valmynd

Þegar fréttin fór í prentun hafði enn enginn gert like við nýjustu stöðuuppfærslu Ragnars.


Ragnar Róbertsson hættur á Facebook Gafst upp á unga fólkinu


Ragnar Róbertsson (72) tók þá afdrifaríku ákvörðun eldsnemma í morgun að hætta að nýta sér samfélagsmiðilinn Facebook.

Ragnar segir að vinir hans hafi átt það til að sleppa því að gera „like“ við færslur hans á miðlinum. Jafnvel hafi komið fyrir að þeir hafi verið ósammála orðum hans.


„Og það fannst mér nú bara alveg gjörsamlega óþolandi, því ég hafði talsvert fyrir þessum stöðufærslum. Oftast tjáði ég mig í bundnu máli, og beitti jafnvel fyrir mig hexametrískum kveðskap“, segir Ragnar, pirraður á svip.

„Svo finnst mér ungt fólk bara upp til hópa ógeðslega leiðinlegt. Það virðist ekki hafa áhuga á neinu nema klámi og guðlasti. Á meðan mín áhugamál snúast meira um sjálfan mig, kveðskap minn, og að fá like á færslur mínar“.

Ragnar vonast til þess að Mark Zuckerberg taki uppsögninni ekki persónulega, enda beinist hún ekki gegn honum, heldur fyrst og fremst unga fólkinu sem virðist hafa hertekið miðilinn á kostnað þeirra sem eldri eru.

En hefur þú engar áhyggjur af því að vinir þínir muni sakna þín Ragnar?

„Þeir voru svo fáir eftir. Þegar mest var átti ég um þrjú þúsund vini þarna. En í hvert sinn sem einhver var ósammála mér, nú eða gleymdi að gera like, þá henti ég honum umsvifalaust út, blokkaði hann, og sendi honum hótunarbréf með lögfræðilegu ívafi í þríriti, ásamt því að birta níðvísu um frændfólk hans og forfeður á vegg mínum. Þannig að í lokin voru nú bara átta vinir eftir“.

Að lokum segir Ragnar að hann muni aldrei nokkurn tíma eiga afturkvæmt á Facebook. Þeir sem til karlsins þekkja eru þó á öðru máli, og reikna með því að hann verði orðinn virkur í athugasemdum fljótlega. Jafnvel um hádegisbil.

Eyjan






Eldhúsdagsdansinn






Fara efst á síðu