Fréttir Myndir Gullkorn Gyssurar Þjóðargersemi Sigm Und-ur Ýmislegt Könnunin Fréttabréf Samband
Fréttir Myndir Gullkorn Gyssurar Þjóðargersemi Sigm Und-ur Ýmislegt Könnunin Fréttabréf Samband
Loka valmynd

Örn Bárður er hugsi yfir stöðu bænarinnar. Telur RÚV vera að jaðar- eða jarðsetja kristni.


Staða bænarinnar tvísýn Skjálfti kominn í presta víða um land


Prestar hafa nú miklar áhyggjur af stöðu bænarinnar í íslensku samfélagi, eftir að opinberar ríkiskirkjuútvarpsbænir hafa verið teknar af dagskrá.

Ætlunin var að taka viðtal við síra Hjálmar Jónsson, en hann froðufelldi af bræði, urraði og spangólaði, og kom ekki upp (skiljanlegu) orði.

Hugsanlegt er þó að hann hafi einungis verið að fara með bæn.

En hvað um það, blaðamaður ákvað að taka hús á síra Erni Bárði í staðinn.

Sírann er í góðu skapi, þegar blaðamann ber að garði. Hann situr í mestu makindum á kirkjuveröndinni, sólar sig, gluggar í gamla metsölubók, og dreypir á messuvíni. Um leið og hann verður gestsins var, hrópar hann „halelúja“ og „amen“, stekkur upp úr sæti sínu, og hleypur inn í kirkjuna. Örskömmu síðar snýr hann aftur, með aukaglas, og nokkrar oblátur í skál.

Aðspurður segist Örn Bárður hafa umtalsverðar áhyggjur af stöðu bænarinnar.

„Máttur bænarinnar er gríðarlega vanmetinn“, útskýrir hann, á sinn alþýðlega hátt.

„Einu sinni var mér pínu illt í einni tásunni minni. Þannig að ég bað til guðs að ég fengi stæði beint fyrir framan kirkjuna, svo ég þyrfti ekki að ganga langt á helsárum fætinum. Og viti menn, halelúja! Þegar ég ek að kirkjunni, þá sé ég bara autt stæði á besta stað! Svo brýst fram lítill sólargeisli sem lýsir mér leið í fagurlega blámálað stæðið. Amen.“

Ööööö... Þú veist að blá stæði eru fyrir fatl...

„Bíddu, ekki grípa fram í. Einu sinni vantaði mig líka pening, af því að lítilsháttar gjaldeyrisbrask sem ég stóð í gekk ekki alveg eins og í lygasögu. Eins og venjulega bað ég auðvitað til guðs, og fór auðmjúklega fram á að ég fengi fimm réttar tölur í lottóinu. Og viti menn! Ég fékk tvær réttar! Halelúja!“

Tvær?

„Já, ekki gleyma því að vegir guðs eru órannsakanlegir“, svarar sírann sposkur á svip, og nartar glettnislega í oblátu.

En aftur að bæninni. Hvers vegna er það svo slæmt að útvarpsbænir séu lagðar niður, hlustar nokkur á þetta hvort eð er?

„Hvað gerir þú ef þú biður ekki bænir? Það er nefnilega spurningin sjáðu. 

Kannski ferðu í sund. Þá gætirðu drukknað.

Kannski færðu þér pylsu. Þá gæti hún hrokkið ofan í þig og þú gætir kafnað.

Kannski ferðu að vaska upp, brýtur glas og skerð í sundur slagæð.

Ekkert af þessu gæti gerst á bænastund, er það?“

Nei... kannski ekki, en...

„Amen!“


xB 2014


Fara efst á síðu