Fréttir Myndir Gullkorn Gyssurar Þjóðargersemi Sigm Und-ur Ýmislegt Könnunin Fréttabréf Samband
Fréttir Myndir Gullkorn Gyssurar Þjóðargersemi Sigm Und-ur Ýmislegt Könnunin Fréttabréf Samband
Loka valmynd

Ragnari brá heldur betur í brún í morgun.


Sápan búin Alltaf að þvo sér um hendurnar


Ragnar Róbertsson varð fyrir miklu og alvarlegu áfalli í morgun þegar honum varð ljóst að handsápubrúsi hans var galtómur og ekki snefil af sápu að finna í honum.

Hann segist hafa verið óvenju duglegur við að þvo sér um hendurnar undanfarið.

„Ég þvæ mér þegar ég vakna og fyrir og eftir máltíðir og áður en ég kem við fjarstýringuna eða símann og eftir að ég kem við fjarstýringuna eða símann og fyrir og eftir að ég snerti eitthvað annað á heimilinu. Ég þvæ mér líka áður en ég fer í bað og eftir að ég kem upp úr. Svo spritta ég mig auðvitað inn á milli oft og mörgum sinnum og í rauninni alveg stöðugt. Ég vakna líka nokkrum sinnum á hverri nóttu, bara til þess að þvo mér vel og vandlega um hendurnar.

Já og svo þvæ ég mér auðvitað eftir að ég fer á klósettið, en ég hef eiginlega alltaf gert það“, útskýrir Ragnar einlægur á svip (í gegnum fjarfundabúnað auðvitað).

Ragnar segist ekki þora út í búð til að kaupa meiri sápu enda hafi hann frétt að nú um stundir séu jafnvel enn fleiri fávitar í búðum en venjulega. Hann segist því hafa pantað sér sápu í heimsendingu, en sú sápa muni ekki skila sér fyrr en í fyrsta lagi á morgun. Hann muni því þurfa að komast í gegnum daginn í dag, algjörlega sápulaus.

„Ég er búinn að prófa að þvo mér með lýsi og hvítlaukolíu og kokteilsósu og vodka og bensíni. Ég hef þvegið mér með hráum eggjum og með Old Spice rakspíranum mínum og með gleraugnahreinsivökva og bara alls konar sulli sem ég fann á heimilinu, en innst inni óttast ég að það komi bara ekkert í staðinn fyrir sápu.“

Ragnar segist ætla að halda kyrru fyrir á heimili sínu í dag, rétt eins og alla aðra daga, á meðan hann bíður eftir sápunni. Hann er líka búinn að handjárna sjálfan sig fyrir aftan bak til að koma í veg fyrir að hann snerti á sér andlitið.


„Löggulíf“


Fara efst á síðu