Fréttir Myndir Gullkorn Gyssurar Þjóðargersemi Sigm Und-ur Ýmislegt Könnunin Fréttabréf Samband
Fréttir Myndir Gullkorn Gyssurar Þjóðargersemi Sigm Und-ur Ýmislegt Könnunin Fréttabréf Samband
Loka valmynd

Wild-Boys bræður í gamla daga þegar allt lék í lyndi.


Finnst skelfilegt að fyrirtæki axli samfélagslega ábyrgð Telja allar framfarir alltaf á kostnað karlmanna


Wild-Boys bræðurnir Panama-Bjaddni og Simmi-Wintris hafa ekki verið sammála um margt undanfarin ár, annað en klassískan klæðaburð og næringargildi íslenskrar kjötsúpu. En það breyttist snögglega til hins betra nú í vikunni.

Svo hjartanlega sammála eru þeir að það má ekki á milli sjá hvor þeirra er meira sammála hinum. 

En um hvað eru þeir svo sammála nú? Það þarf svo sem ekki að koma neinum á óvart...


Upphafið að þessu öllu má rekja til þess þegar markaðsfólk að störfum í Íslandsbanka uppgötvaði sér til mikillar skelfingar að bankinn nýtur engan veginn sömu vinsælda hjá almenningi og hjá markaðsdeildinni sjálfri.

Í bönker-stemningunni í bankanum hafði starfsfólk almennt talið að fyrirtækið væri vel liðið í samfélaginu enda landsmenn allir löngu búnir að gleyma hruninu og sötra nú kampavín og troða humri og stórsteikum í andlitið á sér.

En þó Íslendingar séu jú vægast sagt vanir því að íslensk einokunar- og fákeppnisfyrirtæki níðist á þeim og mergsjúgi þá alla liðlanga ævina og stundum lengur, þá líkar þeim það samt ekkert sértaklega vel.

Og þarna fara bankarnir einmitt fremstir í flokki. Auðvitað á ekki nokkur manneskja í viðskiptum við banka sér til ánægju og yndisauka. Nei, þar eru öll viðskipti af illri nauðsyn.

Allt þetta uppgötvaði markaðsfólkið í Íslandsbanka sem fyrr segir og ákvað í kjölfarið að einhvers konar aðgerða væri þörf.

Þá var ákveðið að blása til herferðar í þeim tilgangi að hressa duglega upp á orðspor bankans, eða allavega ímynd hans. Eftir sjö mánaða „heilastorm“ voru ýmis markmið tilgreind. Flest voru þau loðin, teygjanleg, þokukennd og óskýr eins og venja er þegar markaðsfólk á í hlut.

En sum voru þó skiljanleg venjulegu fólki, svo sem markmið sem fela í sér að axla samfélagslega ábyrgð með því að draga úr mengun frá peningaprentun og nota umhverfisvænna þvottaefni við peningaþvætti. Eins var ákveðið að senda alla yfir- og millistjórnendur á hálft helgarnámskeið í almennu siðferði og mannasiðum.

En af öllum þeim markmiðum sem bankinn setti sér og starfsfólki sínu vakti þó aðeins eitt einhverja athygli. Það var sú ákvörðun bankans að hætta að auglýsa á skítamiðlum sem anga af stækri pungafýlu.

Fjölmiðlamönnum finnst nefnilega fátt skemmtilegra en að fjalla um sjálfa sig og því varð þessi ákvörðun þeim efni til endalausrar umfjöllunar sem var alfarið á neikvæðum nótum og rituð með hástöfum í stríðsletri. 

Blaðamannafélagið gekk svo langt að krefjast þess að „höfuðstöðvar Íslandsbanka yrðu brenndar ásamt starfsfólki og svokölluðum markmiðum þess.“

Forsvarsmenn félagsins segja þessar áætlanir bankans ekkert minna en aðför að tjáningarfrelsinu og sanna þar með í eitt skipti fyrir öll að margir íslenskir blaðamenn geta hvorki lesið né skrifað sér til gagns.

En það gildir um marga fleiri eins og í ljós kom í kjölfarið.

Og þá komum við aftur að þeim Wild-Boys bræðrum. Það sem þeir eru einmitt sammála um er nauðsyn pungafýlunnar á öllum sviðum samfélagsins. Báðir vilja þeir að hún sé svo súr að fólk svíði hressilega í nefið ef það þarf að leggja leið sína í reykfyllt bakherbergi á ritstjórnarskrifstofum íslenskra fjölmiðla.

Sama skal að þeirra mati gilda um allar stofnanir sem og flest fyrirtæki, nema auðvitað prjóna- og hárgreiðslustofur sem þeir segja að megi áfram vera kellingasjoppur.

Þeim finnst afkáralegt að fyrirtæki í gróðabransanum, líkt og Íslandsbanki er vissulega, skuli detta til hugar að sýna einhverju öðru áhuga en eigin gróðafíkn. Hvað þá einhverju jafn fáránlegu og samfélagslegri ábyrgð eða heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Slíkt sé á þeirra eigin hendi, því stjórnmálamenn séu jú vissulega sérfræðimenntaðir í því að þykjast vilja breyta hlutunum til hins betra, en gera það svo alls ekki.

Þessir varðhundar kerfisins gelta því hvor í kapp við annan þessa dagana við talsverðan fögnuð ýmissa þröngsýnna sjálftökupunga sem nudda saman lófunum í annarlegu múgsefjunarástandi feðraveldisins og kyrja karlrembukvæði hver í kapp við annan í von um að hindra allar samfélagslegar framfarir.

Sérstaklega jafnrétti kynjanna, því það er jú alfarið á kostnað karla.


xB 2014


Fara efst á síðu