Fréttir Myndir Gullkorn Gyssurar Þjóðargersemi Sigm Und-ur Ýmislegt Könnunin Fréttabréf Samband
Fréttir Myndir Gullkorn Gyssurar Þjóðargersemi Sigm Und-ur Ýmislegt Könnunin Fréttabréf Samband
Loka valmynd

Bjarni og Benedikt og Benedikt og Bjarni. - Mynd: Útvarp Saga (eins og sést)


Búinn að stofna enn einn stjórnmálaflokkinn Ætlar kannski að stofna annan í næstu viku


Benedikt Lafleur Sigurðsson stofnaði í gær glænýjan stjórnmálaflokk í eldhúsinu heima hjá sér.
 
Benedikt segist sjálfur ætla að vera formaður, varaformaður, varavaraformaður, ritari og gjaldkeri sem og aðalmaður í stjórn. Enda sé helsta ástæða fyrir stofnun flokksins sú að öðrum en honum sjálfum sé alls ekki treystandi.


Hann segist þó ætla að leyfa vini sínum Bjarna Jónssyni að vera varamaður í stjórn. En bara af því að Bjarni kom í heimsókn akkúrat þegar hann var í miðjum klíðum við stofnun flokksins.
 
Aðspurður um nafn nýja flokksins segir Benedikt að hann sé að velta fyrir sér nokkrum flottum nöfnum, en hallist þó helst að nafninu „Lýðræðishreyfingin“. Það er einmitt sama nafn og Ástþór Magnússon notaði á flokk sem hann stofnaði árið 1998 og fékk 0,6% atkvæða í Alþingiskosningum árið 2009.
 
Önnur nöfn komi líka til greina, svo sem „Hinn Miðflokkurinn“, „Hinn flokkur fólksins“ eða bara „Afturhaldskommatittir, vinir þeirra og vandamenn og nokkur gæludýr“.
 
Benedikt segist ekki alveg vera búinn að ákveða hvers vegna honum finnist nauðsynlegt að stofna glænýjan stjórnmálaflokk. Hann hafi samt verið búinn að prófa að vera í öllum hinum, en aldrei fengið að vera aðalgaurinn og það sé í raun kannski stærsta ástæðan, þó hann ætli aldrei að viðurkenna það opinberlega.

Hann segir að stofnun flokksins hafi gengið vel. „Ég er búinn að fara í viðtal á Útvarpi Sögu. Svo stofnaði ég Feisbúkk síðu og setti inn sömu myndina þrisvar. Það eru strax komin 49 læk við síðuna, þannig að þetta er allt á blússandi siglingu.“

Að lokum vill Benedikt koma þeim skilaboðum á framfæri til kjósenda að nú sé lag á að fjölga miðaldra körlum með ríka þjóðerniskennd og heilbrigða vænisýki á þingi. 

Það sárvanti nefnilega fleiri málþófselskandi loftbólubúa sem viti allt best og hlusti aldrei á aðra.

Þeir geti aldrei orðið of margir.

RÚV


xB 2014


Fara efst á síðu