Fréttir Myndir Gullkorn Gyssurar Þjóðargersemi Sigm Und-ur Ýmislegt Könnunin Fréttabréf Samband
Fréttir Myndir Gullkorn Gyssurar Þjóðargersemi Sigm Und-ur Ýmislegt Könnunin Fréttabréf Samband
Loka valmynd

Eilítið tilgerðarlegur eins og ætíð. Með gleraugun á nefbroddinum og heimspekilegt vangaveltuglott.


Kotroskinn krati í kröppum dansi Ásóttur af garðbæskum bládvergum


Hinn öfgahófsami íhaldskrati, Guðmundur Andri Thorsson, lenti heldur betur í hremmingum þegar hann hugðist festa kaup á sannkristnu páskalambi til að naga yfir hátíðirnar.

„Ég var staddur í Hagkaup eins og ég er gjarnan af einhverjum ástæðum. Eilítið tilgerðarlegur eins og ætíð. Með gleraugun á nefbroddinum og vott af heimspekilegu vangaveltuglotti með alþjóðlegum blæ á vörunum. 


En þar sem ég stend við lambakjötskælinn, með lattébolla í annarri og hvítvínsglas í hinni, tek ég allt í einu eftir því að andstyggilegir, jakkafataklæddir bládvergar hafa umkringt mig.

Þeir sveifla silfurskeiðum og ákalla skurðgoð af Mammon sem þeir virðast hafa haft meðferðis. Þeir voru afmyndaðir á svip með Morgunblaðshúðflúr um líkamann allan og fégræðgin skein úr hverjum andlitsdrætti.

Um tíma hélt ég að þeir ætluðu að éta mig, eða eitthvað þaðan af verra, eins og að einkavæða mig, gengisfella eða hreinlega sleppa mér lausum á markaði,“ segir Guðmundur Andri og augljóst að honum er mikið niðri fyrir.

„Ég slapp við illan leik og fyrir hálfgerða heppni. Ég skvetti úr lattébollanum yfir þá sem stóðu mér næst. Svo reif ég kratarósina úr hnappagatinu og otaði í átt til þeirra um leið og ég sveiflaði lopatreflinum yfir höfði mér og þuldi upp lagagreinar um jafnlaunavottun.

Þetta virtist fá nokkuð á bládvergana og ég notaði tækifærið, ruddist í gegnum þvöguna og braut mér leið út undir beran himin.“

Guðmundur Andri segist aldrei ætla að hætta sér aftur í Garðabæ. Héðan í frá muni hann gera öll sín innkaup á heimaslóðum á Álftanesi.

Sem tilheyrir að vísu Garðabæ núna. 

Og heitir reyndar Garðabær.
Vísir


Herrann í Hádegismóum...


Fara efst á síðu