Fréttir Myndir Gullkorn Gyssurar Þjóðargersemi Sigm Und-ur Ýmislegt Könnunin Fréttabréf Samband
Fréttir Myndir Gullkorn Gyssurar Þjóðargersemi Sigm Und-ur Ýmislegt Könnunin Fréttabréf Samband
Loka valmynd

Svona lítur þriðji orkupakkinn út. Allavega í huga Ragnars.


Skíthræddur við þriðja orkupakkann Og ekki sáttur við hina tvo heldur


Ragnar Róbertsson segist vægast sagt skíthræddur vegna þriðja orkupakkans og yfirvofandi staðfestingar á honum og tilvist hans. Í raun þjáist hann af langvarandi og langvinnri stóráfallastreituröskun vegna þessa. 

Hann segist bryðja bæði pillur og töflur af öllum stærðum og gerðum og í alls konar litum í gríð og erg til þess eins að forðast að hugsa um orkupakkann og mögulega ná í leiðinni örlitlum svefni yfir hánóttina.

Á daginn sitji hann í svitakófi í myrkvuðu gluggalausu herbergi, þétt vafinn í álpappír og loftbóluplast. Bara til þess að forðast að rekast á þriðja orkupakkann eða umfjöllun um hann.

Þrátt fyrir þetta hræðilega ástand viðurkennir Ragnar fúslega að hann hafi ekki nokkra hugmynd um hvað þessi títtnefndi orkupakki snýst um eða inniheldur.

„Ég veit ekkert um þriðja orkupakkann annað en það að hann er alveg hræðilegur og víst töluvert verri en hinir tveir sem á undan honum komu. Eftir því sem mér skilst þá mun þessi viðbjóðslegi orkupakki hafa í för með sér náttúruhamfarir, hungursneyð, blóðsúthellingar, mannát, myglusveppafaraldur og jafnvel fákeppni á flugmarkaði og hækkandi mjólkurverð. Sérstaklega á laktósafríum mjólkurafurðum og jarðarberjaskyri.“ 

Ragnar segir að eina leiðin til að koma í veg fyrir þessar hörmungar sé að útrýma öllum orkupökkum, sama þó einhverjum kunni að finnast það ómannúðlegt.

„Það á bara að gera eins og gert var í Argentínu hérna um árið sko. Smala þessum orkupökkum bara saman í flugvél, fljúga með þá á haf út og svo bara opna hlera!“ segir Ragnar hátíðlegur á svip og stoltur af djúpri þekkingu sinni á suður-amerískri sögu. Blaðamanni þykir jafnframt augljóst að hann hefur lagt mikla vinnu í að finna svo vandaða og ítarlega lausn á stóra orkupakkamálinu.

Að lokum biður Ragnar um að fá að vera í friði, hann sé ekki opinber persóna og eigi rétt á því að básúna skoðanir sínar án þess að þurfa að hlusta á mótrök eða skoðanir annarra. Hvað þá staðreyndir.

Hann vill þó koma þeim skilaboðum til konu sinnar Berglindar, að hafa samband við sig í síma 555-4007 áður en hún fer í búð á leiðinni heim úr vinnu, svo hann geti minnt hana á að kaupa kótilettur.


Herrann í Hádegismóum...


Fara efst á síðu