Fréttir Myndir Gullkorn Gyssurar Þjóðargersemi Sigm Und-ur Ýmislegt Könnunin Fréttabréf Samband
Fréttir Myndir Gullkorn Gyssurar Þjóðargersemi Sigm Und-ur Ýmislegt Könnunin Fréttabréf Samband
Loka valmynd

Allir alveg eins


Hópur karlmanna fastur í skoðanabólu Vilja ekki láta bjarga sér


Hópur karlmanna hefur setið pikkfastur í nokkuð þéttri og þráhyggjuvaldandi skoðanabólu síðustu misserin. Slíkar bólur verða æ algengari og erfiðari viðfangs, en þær rekja uppruna sinn til samfélagsmiðla.

Í slíkum loftbólum myndast oft einstrengislegar og öfgakenndar skoðanir sem geta dregið mjög úr sjálfstæðri hugsun og haft skerðandi og jafnvel lamandi áhrif á heilabú þeirra sem þar dvelja langtímum saman.

Í þessu tilfelli hafa verið gerðar ítrekaðar tilraunir til þess að bjarga mönnunum, en þeir neita allri aðstoð og kjósa frekar að dvelja áfram í bólunni þó hún sé bæði þröng og þétt setin.

Þeir segja enga þörf á því að heyra utanaðkomandi fréttir eða skoðanir, hvað þá staðreyndir, því þeir viti sjálfir allt best. Það hafi þeir sannreynt með því að bera saman skoðanir sínar innan hópsins og komist að því að þeir séu alltaf allir sammála um allt.

Það er því ekkert sem bendir til þess að hægt verði að bjarga mönnunum úr bólunni, þar sem þeim er einfaldlega ekki viðbjargandi, þó þeir geti enga björg sér veitt.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur sent frá sér viðvörun þar sem bólan inniheldur hættulega mikið magn af popúlisma.Eldhúsdagsdansinn


Fara efst á síðu