Fréttir Myndir Gullkorn Gyssurar Þjóðargersemi Sigm Und-ur Ýmislegt Könnunin Fréttabréf Samband
Fréttir Myndir Gullkorn Gyssurar Þjóðargersemi Sigm Und-ur Ýmislegt Könnunin Fréttabréf Samband
Loka valmynd

Sjálfstæðismenn grunaði ekki einu sinni pínkupons að þeir gætu í alvörunni endað í minnihluta.


Kunna ekki að vera í minnihluta Og gengur illa að læra það


Sjálfstæðismönnum í Eyjum gengur afar illa að skilja að þeir séu ekki enn við völd.

Fyrst heimtuðu þeir að Elliði Vignisson yrði áfram bæjarstjóri, þrátt fyrir að hann næði ekki einu sinni kjöri. Og nú bregðast þeir ókvæða við í hvert sinn sem núverandi meirihluti gerir nokkurn skapaðan hrærandi hlut.


Trausti Hjaltason flokksgæðingur og bæjarfulltrúi flokksins útskýrði málið fyrir Gysinu:

„Sko, við höfum bara alltaf verið algjörlega aleinir og aleinráðir hér í Eyjum. Alveg frá því löngu áður en ég byrja að muna pínulítið eftir mér, og kannski miklu fyrr. Og okkur finnst alveg galið og bara gúgúkreisí að nú fái einhverjir aðrir að ráða, bara af því að sum atkvæði komu of seint eða of snemma, eða af því að þau voru greidd öðrum listum.“

Trausti segir það ekki bót í máli, að þeir sem nú ráða séu líka sjálfstæðismenn, þó þeir hafi boðið fram undir öðrum listabókstaf.

„Nei það er ekkert betra. Því þó þau séu í raun við, þá erum við ekki með þeim, og við erum enn meiri við en þau, af því að þú veist, við erum við, en þau voru bara einu sinni við og eru núna þau.“

Trausti tekur skýrt fram að sjálfstæðismenn ætli ekki að nýta þetta tækifæri til þess að læra að starfa með öðrum. Þeir hafi aldrei þurft þess, og nú þegar þeir þurfa þess, þá vilji þeir það ekki.

„Við ætlum bara að biðja alla um að kjósa á alveg réttum tíma næst, hvorki of seint né of snemma, heldur bara akkúrat í miðjunni á miðjum kjördegi. Já og útskýra líka að það þurfi að kjósa réttan Sjálfstæðisflokk, en ekki einhverja lélega eftirlíkingu.“

Að lokum segir Trausti grátandi að það sé þó allavega þjóðhátíð framundan, og hann sé alvarlega að íhuga að vera bara fullur fram að næstu kosningum, í von um að það auðveldi honum að þrauka erfitt tímabil valdaleysis og bitlingaskorts.

Eyjar.net
Visir.is


Eldhúsdagsdansinn


Fara efst á síðu